Æðarsetur Íslands

Sýningin Æðarsetur Íslands er í Norska húsinu í Stykkishólmi.  Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla hefur aðsetur í húsinu en á sumrin er boðið upp á sýningar af ýmsu tagi í rýmum þess sem bera heitið Eldhúsið og Mjólkurstofan og eru á fyrstu hæð hússins.

Í eldhúsinu í Norska húsinu er hlunnindasýning Æðarsetursins þar sem gamalt handverk er sýnt og gömul áhöld sem notuð voru við hreinsun á æðardúni. Þar verða gamlar ljósmyndir og kvikmyndir sýndar, sem gerðar hafa verið um varp og dúntekju í gegnum tíðina.  Boðið verður upp á erindi og fræðslu í eldhúsinu í sumar, og verður stílað inn á sunnudaga í þeim efnum.  Þá munu fróðir segja frá og sýna t.a.m. vinnubrögð sem tíðkuðust við vinnslu dúnsins og fleira.

Í mjólkurstofunni er fræðslusýning um lífríki æðarfuglsins, vágesti hans auk þess sem munir sem tengjast Æðarfuglinum verða þar til sölu og sýnis. Helstu samstarfsaðilar um fræðslusýninguna eru Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, Náttúrustofu Vesturlands, Æðarræktarfélag Snæfellinga, Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla, Daníel Bergmann ljósmyndari og Anok margmiðlun auk Æðarsetursins.

Leitað var til listamanna úr Stykkishólmi til að þróa listmuni fyrir setrið sem verða til sölu þar í sumar, auk þess sem hægt verður að kaupa æðardúnssængur í ýmsum stærðum og útfærslum.

Við Breiðafjörðinn er stærsta æðarvarp á landinu og hefur dúnhreinsun verið starfrækt um langt skeið í Stykkishólmi.

Æðarsetrið var opnað af Frú Dorrit Mousaieff verndara setursins 13. júní 2011.