Æðarfugl

Somateria mollissima
Æður, kolla (kvenfuglinn), bliki (karlfuglinn) veturliði (veturgamall bliki) pok(a)önd (Þegar menn veiða fuglinn óvart).

Æðarfuglinn hefur verið friðaður á Íslandi frá árinu 1847. Æðarfuglinn er staðfugl á Íslandi en er upprunninn á Norður-Heimskautssvæðinu. Hann verpur helst á Norðlægum slóðum Íslandi, Grænlandi, Kanada og víðar. Hann lifir þó einnig enn sunnar, verpur t.d. á Bretlandseyjum og í Skandinavíu, og hefur vetursetu á Norðursjó. Æðarfuglar verpa gjarnan saman í byggðum á litlum eyjum með fram ströndum.
Æðarfugl getur orðið rúmlega 20 ára og nokkrir verða enn eldri.
Tilhugalífið hefst seint á haustin og eru fuglarnir að para sig allan veturinn. Varp hefst í apríl og maí. Kollan sér um hreiðurgerð og fóðrar hreiðrið með dúni sem fellur af bringunni. Venjulega eru 4-6 egg í hverju hreiðri en oft eru þó fleiri egg í hreiðrum og koma þau jafnvel frá öðrum kollum.
Blikinn heldur sig nærri hreiðrinu á meðan kollan verpur og fyrstu daga álegunnar. Þegar blikarnir yfirgefa kollurnar leita þeir sér félagskapar með öðrum blikum á leið á fellistöðvarnar. Síðla júlímánaðar eru blikarnir komnir í felubúning og á haustmánuðum fara þeir í varpskrúða á ný.
Ungarnir fara sólarhringsgamlir úr hreiðri á sjóinn en þeir ungar sem komast lífs af eiga 2-3 ár í það að ná kynþroska og verða gjaldgengir í æðarvarpi.
Fæða unganna er að mestu marflær og önnur krabbadýr en fæða fullorðins fugls er kræklingur, aða og ýmsar aðrar tegundir hryggleysingja.
Æðarfugl kjagar um og flýgur upp frekar en að hlaupa. Hann er mikill sundfugl og notar vængina til að synda í kafi, líkt og svartfuglar og mörgæsir. Hann getur kafað niður á 20 – 30 metra dýpi.
Æðarfuglinn er arðmesti fugl Íslands. Æðardúnninn er hrein náttúruafurð og hefur þá eiginleika að hafa mikla samloðun, fjaðurmögnun og léttleika. Ólíkt dúni annarra fugla er æðardúnninn alsettur örfínum þráðum með fíngerðum krókum sem allir krækjast saman sem veldur samloðun hans. Æðardúnninn hefur vegna þessa mjög mikið einangrunargildi og er því af mörgum sagður besti dúnn í heimi.