Frá hreiðri til sængur

Í varplandi

Í apríl byrja margir bændur að undirbúa varpið. Hvernig undirbúningnum er háttað veltur á því hvernig varplandið er. Í sumum tilfellum undirbúa bændur varpið með því að búa til hreiðurstæði, smíða lítil hús, koma fyrir dekkjum eða skjólborðum. Dyttað er að bátum og farnar ferðir í vörpin til að kanna hvort kollan er farin að setjast upp.
Í öðrum vörpum þurfa bændur að vera á sólahringsvakt til að verja varpið frá mink og tófu. Hefst með þessu hið fullkomna samspil manns og náttúru þar sem maðurinn verndar kolluna og fær dúninn hennar í staðinn.

Dúnn úr hreiðri

Í lok maí og byrjun júní hefst svo dúntínslan og stendur venjulega yfir fram yfir miðjan júní. Bændur ganga um varplöndin sín og tína æðardúninn. Æði misjafnt er hvernig dúnninn er tíndur og hvernig haldið er utan um hreiðurtölur. Hver bóndi hefur sína hefð. Sumir fara tvisvar sinnum yfir varpið og byrja þá snemma á varptímanum í lok maí og fara seinni ferðina um miðjan júní. Sumir bændur skilja alltaf eftir dúnhnoðra í hreiðrinu á meðan aðrir taka allan dún en setja þurrt hey í staðinn. Flestir bændur telja hreiðrin í varplöndum sínum aðrir telja einnig eggin.

Þurrkun dúns

Um leið og dúnninn hefur verið tíndur er hann þurrkaður. Yfirleitt á grindum með hitablæstri. Þegar vel viðrar dreifa sumir bændur honum á tún til þurrkunar í sólinni. Mjög mikilvægt er að dúnninn sé þurrkaður vel, strax að dúnleit lokinni. Sé það ekki gert er hætt við að hann fúni og morkni og tapar hann við það einstökum eiginleikum sínum. Dúnn sem glatað hefur eiginleikum sínum er ekki nægur að gæðum til notkunar. Þegar dúnninn er þurrkaður og dreift úr honum á grindur er hann hristur í leiðinni og grófasta ruslið tínt úr honum um leið.

Krafsari

Þegar dúninn er orðinn vel þurr er honum pakkað í poka, best er að setja hann í balla sem anda en ekki plast ef raki skyldi leynast í honum. Þannig er hann sendur til hreinsunar.

Grófhreinsun: Eftir að dúnninn er kominn í hreinsistöð er hann grófhreinsaður í grófri hreinsivél. Við það fer töluvert af rusli úr dúninum.

Hitun: Þá er dúnninn hitaður að lágmarki í 8 klukkustundir við 120°C.

Fjaðratínsluvél

Kröfsun: Þegar dúnninn hefur verið hitaður er hann settur í hreinsivél sem stundum er kallaður krafsari. Í hreinsivélinni fer megnið að rusli úr dúninum. Hitunin gerir það að verkum að allt gras, þang, lyng, mosi og annað sem kemur úr náttúrunni í dúninn þornar mjög vel og brotnar því eða mylst auðveldlega úr dúninum.

Vélfjaðratínsla: Þá er dúnninn settur í fjaðratínsluvél sem dregur nokkuð af fjöðrum úr dúninum.

Handhreinsunaraðstaða

Handhreinsun: Í lokin er dúnninn handhreinsaður þar sem þær fjaðrir sem ekki fóru úr í fjaðratínsluvélinni, strá og annað rusl sem ekki náðist úr við vélhreinsunina er hreinsað.

Þvottur: Áður en dúnninn er settur í sængur eða fatnað þarf að þvo hann í vatni. Sé hann ekki þveginn lyktar hann. Einkum þar sem lofslag er rakt. Til að dúnninn haldi að fullu þeim eiginleikum sem hann er gæddur að þvotti loknum, er dúnninn þveginn hjá Queen Eider í höndum af mikilli nærgætni. Við þvottinn fer lykt og fíngert ryk sem ekki fer úr að fullu í hreinsunarferlinu.

Að þessu ferli loknu er dúnninn tilbúinn í fullunna vöru. Lang stærsti hluti íslenska æðardúnsins fer í hágæða sængur. Íslenski æðardúnninn fer einnig að einhverju leyti í vandaðan fatnað, þá aðallega í tískufatnað og útivistarfatnað.

Hágæða æðardúnssæng

Að þessu ferli loknu er dúnninn tilbúinn í fullunna vöru. Lang stærsti hluti íslenska æðardúnsins fer í hágæða sængur. Íslenski æðardúnninn fer einnig að einhverju leyti í vandaðan fatnað, þá aðallega í tískufatnað og útivistarfatnað.